Tag Archives: áfallstreituröskun

Vatnið, gríman og geltið eftir Silju Björk Björnsdóttur

„Það er í lagi að vera ekki í lagi.”

Vatnið, gríman og geltið er hreinskilin og átakanleg reynslusaga af þunglyndi og áfallastreituröskun. Þó að efnið sé erfitt þá er bókin engu að síður mjög fallega skrifuð og virðist Silja hafa góðan skilning á notkun myndlíkinga og beitir þeim á mjög skemmtilegan og ljóðrænan hátt. Sagan er jafnframt mjög grípandi og auðvelt er að lifa sig inn í atburðarás hennar og finna til samkenndar með Silju. 

“Hamingjan er ég, blóðug eftir baráttuna, með ísköld lík hundana undir fótum mér. Hamingjan er ég, gríman í molum og örin sjáanleg.”

Ég átti mjög erfitt með að leggja bókina frá mér og las hana á innan við sólahring. Ég lifði mig inn í frásögnina og átti mjög auðvelt með að sjá sjálfa mig í sumum aðstæðum hennar. Ég dáist að því hvað Silja er kjörkuð í frásögn sinni af tilfinningaóreiðu, erfiðum hugsunum, upplifunum og áföllum. Hún heldur ekkert aftur af sér og er það af þeim sökum sem lesandinn fær að upplifa frásögnina svo sterkt í gegnum hana. Þetta er vafalaust bók sem gæti höfðað til margra sem geta tengt sterkt við efni hennar. 

Vatnið, gríman og geltið er fyrsta bók Silju Bjarkar Björnsdóttur og með henni stimplar hún sig rækilega inn sem mjög hæfileikaríkur penni og skáld sem vert er að fylgjast með í framtíðinni. Ég hef það sterkt á tilfinningunni að Silja sé aðeins rétt að byrja. 

Bókin Vatnið gríman og geltið fæst í Pennanum Eymundsson.